fbpx

Sýni

Fiskur

Silungur undir grænmetisþaki

Lýsing:

Það er háð stærð flaksins hversu marga munna er hægt að metta með þessum rétti. Þetta er hollur og fyrirhafnarlítill réttur.

Innihald:

Silungsflak
1 rauðlaukur
1/2 púrrulaukur
1/2 kúrbítur (zucchini)
grænar ólífur eftir smekk
1 lítil dós tómatkraftur (70 g)
eða 3 msk tómatmauk úr sólþurrkuðum tómötum
Hvítlaukur
Oreganó – ferskt eða þurrkað
Salt og pipar

Aðferð:

Silungurinn er settur á bút af álpappír sem er hæfilega stór til að hægt sé að pakka fiskinum og grænmetinu inn. Flakið er kryddað eftir smekk og tómatkraftinum dreift yfir flakið. Allt grænmeti skorið í þunnar sneiðar og sett ofan á flakið. Ólífum stráð yfir. Pakkanum lokað og hann bakaður við 180°C í ofni í 30-40 mínútur allt eftir þykkt flaksins. Síðustu mínúturnar er gott að stilla á grill og láta grænmetið brúnast aðeins.
Borið fram með kotasælu-sinnepssósu (sjá uppskriftasafn), kartöflum og góðu salati.
———————————-
Hægt er að nota hvaða grænmeti sem er í þakið. Leyfið hugmyndafluginu og því sem er við höndina að ráða!

Engar athugasemdir

Saltfisksalat í hátíðarbúningi

Lýsing:

þetta er yndislega góður saltfiskréttur/salat með djúpsteiktun hvítlauk og chilli.
Hentar vel sem forréttur eða sem réttur á hlaðborðið.

Innihald:

Saltfiskur í bitum
Ólífuolía
Smá hveiti
Kartöflur
Slatti af hvítlauk skorinn í sneiðar
Slatti af rauðum chillipipar skorinn í litla bita (eða sneiðar)
Tómatar úr dós
Salt og svartur pipar
Gott grænt salat

Aðferð:

Fiskinum er velt upp úr hveiti og hann steiktur í ólífuolíu og kryddaður með svörtun nýmöluðum pipar.
Hitið góðan slatta af ólífuolíu á pönnu og djúpsteiðið hvítlaukinn og chilliið
Sjóðið kartöflur og skerið í sneiðar
Hitið tómatana í potti, kryddið með chilli, hvítlauk, salti, pipar og ef til vill skvettu af balsamik ediki

Raðið saman eins og sýnt er á myndinni

Engar athugasemdir

Rækjufylling í tortillur

Lýsing:

Létt og bragðgóð fylling – fljótlegur réttur. Hæfilegt magn í 6 stk.
Innihald:

2 msk ólífuolía
1 rauðlaukur, smátt skorinn
1-2 hvítlauksrif, marin
1 chili, smátt skorið (hægt að nota chilikrydd í staðinn)
ca. 30 g púrrulaukur
2 tómatar, í tengingum
1/2 lárpera (avókadó) skorin í teninga
1/2 mangó, skorinn í teninga
1/2 dós maísbaunir
200 g rækjur
1 msk sítrónusafi
Pipar, salt og cayennepipar eftir smekk.
Aðferð:

Steikið laukinn og hvítlaukinn í olíunni. Bætið grænmetinu út í og látið krauma í nokkrar mínútur. Bætið rækjunum og sítrónusafanum út í og kryddið. Hitið örlitla stund eða þartil rækjurnar eru heitar í gegn.
Notað sem fylling í tortillur. Bætið við ferskum salatblöðum, 10% sýrðum rjóma og örlitlum rifnum osti í tortilluna.
Gott er að setja sítrónusneiðar í vatn og bjóða það ískalt að drekka.

Engar athugasemdir

Plokkfiskur 21. aldarinnar (Fiskbaka að hætti Jamie Oliver)

Lýsing:

„Fiskbakan er einhver notalegasti og besti matur sem ég get hugsað mér. Þetta er æðisleg uppskrift sem ég er mjög hrifinn af“ (Jamie Oliver)

Innihald:

Handa 6

5 stórar kartöflur, afhýddar og skornar í 2,5 cm bita
salt og nýmalaður svartur pipar
2 egg úr frjálsum hænum
2 stórir hnefar af nýju spínati
1 laukur, saxaður smátt
1 gulrót, skorin í tvennt og söxuð smátt
fín jómfrúr olía
um 2,5 dl rjómi
2 vænir hnefar af rifnum þroskuðum cheddar- eða parmesanosti
safi úr einni sítrónu
1 kúfuð teskeið enskt sinnep (honey mustard td.)
stór hnefi af sléttblaða steinselju, söxuð smátt
450 g ýsu- eða þorskflak, roðflett, beinhreinsað og skorið í ræmur
múskat (má sleppa)

Aðferð:

Hitið ofninn í 230°C. Setjið kartöflurnar í sjóðandi saltað vatn og látið sjóða í tvær mínútur. Setjið þá eggin útí og látið sjóða með kartöflunum í 8 mínútur. Gufusjóðið spínatið um leið í um 1 mínútu í sigti ofan á pottinum. Takið spínatið og kreistið varlega úr því umfram vætu. Skerið eggin í fernt.

Steikið lauk og gulrót við vægan hita í ögn af ólífuolíu í um 5 mínútur. Bætið þá við rjóma og hitið að suðu. Takið af hitanum og bætið við osti, sítrónusafa, sinnepi og steinselju.
Setjið spínatið, fiskinn og eggin í leirfat, blandið því saman og hellið rjómasósunni með grænmetinu ofaná. Stappið kartöflurnar með smá ólífuolíu, salti, pipar og ögna af múskat (ef vill). Þetta er síðan sett ofan á fiskinn. Bakað í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru ljósbrúnar.

Berið fram með ertum eða salati og jafnvel tómatsósu.

Engar athugasemdir

Núðlur með rækjum

Lýsing:

Fljótlegur en góður réttur fyrir 2.

Innihald:

300 g núðlur – eftir smekk (mér finnst samt kínverskar hrísmjölsnúðlur, hvítar og þunnar langbestar)
1 tsk kurkuma
1/2 púrrulaukur
1 msk olía
200 g rækjur
1 hvítlauksrif, marið
pipar og salt eftir smekk.

Aðferð:

Núðlurnar eru soðnar skv. leiðbeiningum með örlitlu salti og 1 tsk kurkuma er bætt í vatnið til að lita núðlurnar sólskinsgular.
Púrran er þvegin og skorin í þunna hringi. Púrran og rækjurnar eru léttsteikt í olíunni í u.þ.b. 2 mínútur. Kryddað með hvítlauk, salti og pipar eftir smekk. Núðlurnar settar í skál eða á diska og rækjunum skellt yfir. Tilbúið!
Njótið með góðu salati.

Engar athugasemdir

Mexíkóýsa með í tortillum með gúrkusósu

Lýsing:

Þetta er alveg frábær fiskréttur úr bókinni Af bestu lyst 2. Uppskriftin er fyrir 4.

Þessi uppskrift er fljótleg og fiskur passa ljómandi vel í tortillur. Þetta er líka góð leið til að nýta fiskafganga og þá er matreiðslan enn fljótlegri. Svo má setja hvaða grænmeti sem er í réttinn, allt eftir smekk eða bara velja það sem til er í ísskápnum hverju sinni. Gott er að hafa líka með þessu ferskt salat, og jafnvel bæta við hrísgrjónum. Það er gott að lesa uppskriftabækur til að fá hugmyndir en leyfa svo eigin smekk og ímyndunarafli að ráða restinni.

Innihald:

4-6 tortillur (fer eftir stærð)
– 1-2 á mann
500 g ýsa, roðflett og beinhreinsuð
1 tsk salt
½ tsk nýmalaður pipar
1 msk matarolía
1 rauðlaukur (stór)
1 græn paprika
1 chilipipar
2 dl nýrnabaunir (niðursoðnar)
1 dl vatn
½-1 poki taco-kryddblanda
2 niðursoðnir ananashringir

Sósa:
2 dl létt AB-mjólk
1 dl steinselja
2-3 rif hvítlaukur
½ agúrka
1 tsk salt
½ tsk nýmalaður pipar
½ tsk cumin

Aðferð:

1. Skerið ýsuna í strimla og steikið í helmingnum af olíunni. Kryddið m. salti og pipar.
2. Saxið lauk, fræhreinsið papriku og chilipipar og saxið. Hitið í olíu á pönnu og snöggsteikið grænmetið. Hellið niðursoðnu nýrnabaununum út í ásamt vatni. Kryddið með taco-kryddblöndu. Hitið.
3. Skerið ananas í bita og bætið saman við. Hitið tortillurnar í ofni (eða örbylgju) og fyllið með fiski og grænmetisblöndu.

Berið fram með kaldri sósunni.

Sósa: Skerið agúrku í litla teninga. Hrærið allt saman sem þarf í sósuna. Kryddið og geymið í kæli.

Undirbúningur og matreiðsla 30 mínútur.

Engar athugasemdir

Lúða með sítrónu og capers

Lýsing:

Einfaldur, safaríkur og hollur fiskréttur

Innihald:

Stórlúðubitar
Sítrónur
ólífuolía/nokkrar smjörklípur
Salt
Pipar
Lárviðarlauf
Lúka af kapers

Aðferð:

Setjið stórlúðubitana í ofnskúffu, setjið nokkrar klípur af smjöri, ólífuolíu og sítrónusafa yfir lúðuna og í ofnskúffuna.
Skerið sítrónu í báta og raðið allt um kring.Gott er að stinga lárviðarlaufum í 1-2 sítrónubáta.
Bakið í 5-15 mín allt eftir stærð bitanna.
Setjið lúku af kapers (skolið aðeins undir köldu, rennandi vatni) í ofnskúffuna og bakið örlitla stund í viðbót

Berið fram með soðnum kartöflum og góðu salati.

Engar athugasemdir

Laxaborgarar

Lýsing:

Íslendingar borða sífellt minni fisk. Sumir kenna því um að börnin vilji hann ekki og því taki því ekki að matreiða fisk. Hamborgarar eru vinsælir hjá flestum krökkum. Því ekki að skella fiski í hamborgarabrauðið? Hægt er að notast við venjulegar fiskibolluuppskriftir og forma úr þeim klatta sem passa vel í brauðið. Hér er svo hugmynd að bollum/klöttum úr laxi sem eru dásamlegir í brauði. Uppskriftin er fyrir 6 borgara.

Innihald:

500 g soðinn lax
1 laukur, smátt saxaður
4 msk brauðmylsna
2 egg
1 tsk salt
Pipar eftir smekk

Góð sósa með:
3 dl súrmjólk
Börkur af sítrónu (muna að þvo sítrónuna vel fyrst)
Safinn úr ½ sítrónu
2 msk sætt sinnep
1 marið hvítlauksrif
1 dl ferskt dill
Graslaukur eftir smekk
Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

Laxinn er soðinn – ágætt að setja í sjóðandi saltvatn og snöggsjóða og leyfa svo að kólna aðeins. Stappa svo fiskinn t.d. með gaffli.
Öðrum hráefnum blandað saman við fiskinn.
Steikt í örlítilli olíu í örfáar mínútur á hvorri hlið þar sem að fiskurinn er þegar soðinn. Má líka ofnsteikja.
Sósan er einfaldlega búin til með því að hræra saman hráefnunum. Gott að leyfa að standa aðeins áður en hún er borin fram.

Engar athugasemdir

Fiskur á kartöflubeði – pizzafiskur

Lýsing:

Þetta er eins konar pizzufiskur!
Krakkar kunna að meta þennan.
Uppskriftin er fyrir u.þ.b. fjóra.

Innihald:

Kartöflur – hæfilegt magn til að fylla botninn á eldföstu móti eða ofnskúffu
Fiskur (að eigin vali) – gott að miða við 150 g á mann.
Olía, salt, pipar, sítrónusafi og rósmarín eftir smekk.

Girnileg tómatsósa:
1 dós niðursoðnir tómatar
5-6 sólþurrkaðir tómatar
1 rauðlaukur
1 rif hvítlaukur
2-3 msk edik – balsamik eða rauðvíns
2 tsk púðursykur
Pipar og salt eftir smekk
Ferskar eða þurrkaðar kryddjurtir eftir smekk
2 ferskir tómatar til skreytingar

Aðferð:

Kartöflur skornar í sneiðar og settar í ofnskúffu. Smá olía sett yfir.
Kryddað með salti, pipar og rósmaríni. Bakað í 20 mínútur.
Á meðan er tómatsósa búin til – laukurinn og hvítlaukurinn steiktur í 1-2 msk af olíu af sólþurrkuðu tómötunum. Síðan er tómatdósinni bætt í, sósan krydduð og látin krauma í 10-20 mín.
Fiskurinn skorinn í hæfilega bita og lagður ofan á kartöflurnar. Fiskurinn er saltaður og sítrónusafi kreistur yfir.
Tómatsósan sett þar yfir (heimagerð er best en annars má líka nota tilbúnar sósur sem ekki eru of sykraðar). Bakað áfram þar til fiskurinn er tilbúinn.
Tómatar skornir í sneiðar og settir á toppinn til skrauts, annað hvort fyrir eða eftir ofnsteikinguna.
——-

Áferð sósunnar:
Allt maukað – mjög fínt þannig að ekki verði neinar örður ef börnin eiga að borða það, grófara fyrir fullvaxta sælkera.

Lúxusútgáfa að réttinum:
Fyrir þroskaða bragðlauka. Fyrir fullorðna er gott að nota í réttinn útvatnaðan saltfisk og bæta við ólífum, kapers og/eða chillíi.

Engar athugasemdir

Fiskréttur með AB toppi

Lýsing:

Fljótlegur og einfaldur fiskréttur með tveimur tegundum af sósum.

Innihald:

500 g fiskstykki
1 blaðlaukur skorinn í sneiðar
1-2 paprikur skornar smátt
ab mjólk (síuð)
gott karrý
mangó chutney
mauk úr sólþurkuðum tómötum
Salt og svartur pipar

Aðferð:

Búið til tvær sósur úr AB mjólkinni. Önnur sósan er “krydduð “ með karrí, mangó chutney, salti og pipar. Hin sósan er krydduð með mauki úr sólþurrkuðum tómötum, salti og pipar.
Svissið blaðlauk og papriku á pönnu og kryddið með smá salti og pipar.
Setjið fiskstykkin í eldfast mót, saltið. Setjið laukblönduna yfir og að síðustu sitthvora sósuna á sitthvort stykkið.
Svo má alveg strá smá rifnum osti yfir
Bakið í ofni í um 10-15 mín eða þar til fiskurinn er tilbúinn.

Engar athugasemdir
Close
loading...