fbpx

Sýni

Fiskur

Silungur undir grænmetisþaki

Lýsing:

Það er háð stærð flaksins hversu marga munna er hægt að metta með þessum rétti. Þetta er hollur og fyrirhafnarlítill réttur.

Innihald:

Silungsflak
1 rauðlaukur
1/2 púrrulaukur
1/2 kúrbítur (zucchini)
grænar ólífur eftir smekk
1 lítil dós tómatkraftur (70 g)
eða 3 msk tómatmauk úr sólþurrkuðum tómötum
Hvítlaukur
Oreganó – ferskt eða þurrkað
Salt og pipar

Aðferð:

Silungurinn er settur á bút af álpappír sem er hæfilega stór til að hægt sé að pakka fiskinum og grænmetinu inn. Flakið er kryddað eftir smekk og tómatkraftinum dreift yfir flakið. Allt grænmeti skorið í þunnar sneiðar og sett ofan á flakið. Ólífum stráð yfir. Pakkanum lokað og hann bakaður við 180°C í ofni í 30-40 mínútur allt eftir þykkt flaksins. Síðustu mínúturnar er gott að stilla á grill og láta grænmetið brúnast aðeins.
Borið fram með kotasælu-sinnepssósu (sjá uppskriftasafn), kartöflum og góðu salati.
———————————-
Hægt er að nota hvaða grænmeti sem er í þakið. Leyfið hugmyndafluginu og því sem er við höndina að ráða!

Engar athugasemdir

Saltfisksalat í hátíðarbúningi

Lýsing:

þetta er yndislega góður saltfiskréttur/salat með djúpsteiktun hvítlauk og chilli.
Hentar vel sem forréttur eða sem réttur á hlaðborðið.

Innihald:

Saltfiskur í bitum
Ólífuolía
Smá hveiti
Kartöflur
Slatti af hvítlauk skorinn í sneiðar
Slatti af rauðum chillipipar skorinn í litla bita (eða sneiðar)
Tómatar úr dós
Salt og svartur pipar
Gott grænt salat

Aðferð:

Fiskinum er velt upp úr hveiti og hann steiktur í ólífuolíu og kryddaður með svörtun nýmöluðum pipar.
Hitið góðan slatta af ólífuolíu á pönnu og djúpsteiðið hvítlaukinn og chilliið
Sjóðið kartöflur og skerið í sneiðar
Hitið tómatana í potti, kryddið með chilli, hvítlauk, salti, pipar og ef til vill skvettu af balsamik ediki

Raðið saman eins og sýnt er á myndinni

Engar athugasemdir

Rækjufylling í tortillur

Lýsing:

Létt og bragðgóð fylling – fljótlegur réttur. Hæfilegt magn í 6 stk.
Innihald:

2 msk ólífuolía
1 rauðlaukur, smátt skorinn
1-2 hvítlauksrif, marin
1 chili, smátt skorið (hægt að nota chilikrydd í staðinn)
ca. 30 g púrrulaukur
2 tómatar, í tengingum
1/2 lárpera (avókadó) skorin í teninga
1/2 mangó, skorinn í teninga
1/2 dós maísbaunir
200 g rækjur
1 msk sítrónusafi
Pipar, salt og cayennepipar eftir smekk.
Aðferð:

Steikið laukinn og hvítlaukinn í olíunni. Bætið grænmetinu út í og látið krauma í nokkrar mínútur. Bætið rækjunum og sítrónusafanum út í og kryddið. Hitið örlitla stund eða þartil rækjurnar eru heitar í gegn.
Notað sem fylling í tortillur. Bætið við ferskum salatblöðum, 10% sýrðum rjóma og örlitlum rifnum osti í tortilluna.
Gott er að setja sítrónusneiðar í vatn og bjóða það ískalt að drekka.

Engar athugasemdir

Plokkfiskur 21. aldarinnar (Fiskbaka að hætti Jamie Oliver)

Lýsing:

„Fiskbakan er einhver notalegasti og besti matur sem ég get hugsað mér. Þetta er æðisleg uppskrift sem ég er mjög hrifinn af“ (Jamie Oliver)

Innihald:

Handa 6

5 stórar kartöflur, afhýddar og skornar í 2,5 cm bita
salt og nýmalaður svartur pipar
2 egg úr frjálsum hænum
2 stórir hnefar af nýju spínati
1 laukur, saxaður smátt
1 gulrót, skorin í tvennt og söxuð smátt
fín jómfrúr olía
um 2,5 dl rjómi
2 vænir hnefar af rifnum þroskuðum cheddar- eða parmesanosti
safi úr einni sítrónu
1 kúfuð teskeið enskt sinnep (honey mustard td.)
stór hnefi af sléttblaða steinselju, söxuð smátt
450 g ýsu- eða þorskflak, roðflett, beinhreinsað og skorið í ræmur
múskat (má sleppa)

Aðferð:

Hitið ofninn í 230°C. Setjið kartöflurnar í sjóðandi saltað vatn og látið sjóða í tvær mínútur. Setjið þá eggin útí og látið sjóða með kartöflunum í 8 mínútur. Gufusjóðið spínatið um leið í um 1 mínútu í sigti ofan á pottinum. Takið spínatið og kreistið varlega úr því umfram vætu. Skerið eggin í fernt.

Steikið lauk og gulrót við vægan hita í ögn af ólífuolíu í um 5 mínútur. Bætið þá við rjóma og hitið að suðu. Takið af hitanum og bætið við osti, sítrónusafa, sinnepi og steinselju.
Setjið spínatið, fiskinn og eggin í leirfat, blandið því saman og hellið rjómasósunni með grænmetinu ofaná. Stappið kartöflurnar með smá ólífuolíu, salti, pipar og ögna af múskat (ef vill). Þetta er síðan sett ofan á fiskinn. Bakað í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru ljósbrúnar.

Berið fram með ertum eða salati og jafnvel tómatsósu.

Engar athugasemdir

Núðlur með rækjum

Lýsing:

Fljótlegur en góður réttur fyrir 2.

Innihald:

300 g núðlur – eftir smekk (mér finnst samt kínverskar hrísmjölsnúðlur, hvítar og þunnar langbestar)
1 tsk kurkuma
1/2 púrrulaukur
1 msk olía
200 g rækjur
1 hvítlauksrif, marið
pipar og salt eftir smekk.

Aðferð:

Núðlurnar eru soðnar skv. leiðbeiningum með örlitlu salti og 1 tsk kurkuma er bætt í vatnið til að lita núðlurnar sólskinsgular.
Púrran er þvegin og skorin í þunna hringi. Púrran og rækjurnar eru léttsteikt í olíunni í u.þ.b. 2 mínútur. Kryddað með hvítlauk, salti og pipar eftir smekk. Núðlurnar settar í skál eða á diska og rækjunum skellt yfir. Tilbúið!
Njótið með góðu salati.

Engar athugasemdir