fbpx

Sýni

Morgunbitar

Heimagert múslí

Innihald:
5 dl rúgflögur
5 dl hafragrjón
100 g möndlur eða valhnetur
2 dl sólblómafræ
1 dl kókosmjöl
1 dl hörfræ (má sleppa)
½ – 1 dl hrásykur
2 dl vatn
5 msk matarolía – EKKI ólífuolía, þarf að vera bragðdauf
2-3 dl rúsínur

Aðferð:
Hakka möndlur/hnetur gróft. Blanda þeim ásamt fræjum, mjöli og sykri í djúpa skál. Hita ofn í 200°C. Bæta vatni og olíu út í skálina og hræra vel. Hnoða hráefnunum saman til að rakinn dreifist. Fletja út á bökunarplötu (á bökunarpappír) og baka í 20-30 mínútur. Hér þarf að vera vel vakandi og fygljast með múslíinu – það þarf að velta fræjunum á u.þ.b. 10 mínútna fresti til að þau ristist jafnt. Blandan er svo látin kólna og rúsínunum bætt við kalda blönduna. Allt sett í þétta krukku til að haldist best á meðan ekki er búið að borða allt saman! Borðað með mjólkurmat eða grautum og ávöxtum.

Engar athugasemdir

Hafragrauturinn – þessi klassíski

Lýsing:
Morgunmaturinn er mikilvægasta máltíð dagsins. Hann stuðlar að bættri heilsu, auknum afköstum við leik og störf og auðveldar þér að halda þyngdinni í lagi. Morgunkorn, grautar og annar spónarmatur eru þægilegir réttir sem auðvelt og fljótlegt er að borða í morgunsárið.

Innihald:
4 dl vatn
2 dl hafragrjón
Salt eftir smekk
Léttmjólk/fjörmjólk sem útálát

Aðferð:
Soðið í potti í 5-10 mínútur eða í örbylgjuofni í 2-3 mínútur.

Margar leiðir eru til að bragðbæta grautinn og gefa tilbreytingu. T.d.
•Berjasaft í stað mjólkur sem útálát.
•Skerið ferska ávexti niður og setjið út á.
•Stráið hnetum eða fræjum út á grautinn.
•Blandið þurrkuðum ávöxtum saman við, t.d. rúsínum, sveskjum, apríkósum… – annað hvort fyrir suðu eða eftir á, allt eftir því hvort þið viljið heita eða kalda ávexti.
•Kryddið með kanil, múskati, allrahanda eða negul.
•Blandið ávaxtamauki saman við grautinn, t.d. epalmauki.
•Hrærið skyri saman við – þá er kominn þjóðlegur skyrhræringur.
•Stráið morgunkorni eða múslíi út á.

Engar athugasemdir

Hafra og ávaxta jógúrt

Lýsing:
Fyrir 2.

Innihald:
1 lítil jógúrt
1 msk hunang
Örfáir vanilludropar eða vanillusykur
3 dl hafraflögur eða hirsi
600 g af ferskum ávöxtum, t.d. jarðarberjum, banönum, mangó….
Safi úr ½ líme
4 msk grófhakkaðar hnetur, t.d. cashew eða valhnetur

Aðferð:
Jógúrtin bragðbætt með hunangi og vanillu eftir smekk. Höfrunum hrært út í og látið standa í ca. 1 klst.
Hreinsa og skera niður ávextina og dreypa límesafanum yfir. Ávöxtunum hrært saman við hafrajafninginn og hökkuðum hnetum stráð yfir.

Til hátíðabrigða má bæta örlitlum rjóma t.d .kaffi- eða matreiðslurjóma út í jógúrt-hafrablönduna um leið og hún er búin til, þá verður jafningurinn sannkallaður veislukostur.
Önnur leið til að bragðbæta og sæta jógúrtina er að brytja nokkrar makkarónukökur saman við hana í stað þess að nota hunang og vanillu.

Engar athugasemdir

Gulrótarmúslí

Lýsing:
Fyrir 2-4

Innihald:
3-4 gulrætur
3 dl hafraflögur
2 msk sítrónusafi
2 msk (hlyn)síróp eða hunang

Aðferð:
Þvo, skræla og raspa gulræturnar gróft.
Blanda sítrónusafa, höfrum og sírópi samanvið.
Borðað með léttmjólk, súrmjólk eða jógúrt.

Engar athugasemdir

Grautur Gabríels

Lýsing:
Fyrir 4

Innihald:
3 dl bankabygg
6-8 dl vatn
1,5 dl rúsínur
1-1,5 tsk salt
1-2 epli skorin í teninga
1 msk kanill

Aðferð:
Bankabygg þarf u.þ.b. 40 mínútna suðu. Einfaldast er að setja allt hráefnið í einu í pott og láta suðuna koma upp. Grauturinn þolir vel geymslu í kæli og má því allt eins búa til fyrir nokkra daga í senn.

Engar athugasemdir