Stofnun matvælafyrirtækja

Matvælaframleiðsla er undirstöðuatvinnugrein á Íslandi og eru kröfur til matvælaframleiðslu margvíslegar. Námskeiðinu er ætlað að svara hinum ýmsu spurningum varðandi lög og reglugerðir, innra eftirlit, vöruþróun og umbúðamerkingar, styrkjaumhverfið o.fl. Áhersla verður lögð á gæðamál, rekstrar- og markaðsmál. Mikið er lagt upp úr verkefnavinnu og að vinna með raunveruleg vandamál sem fólk hefur staðið frammi fyrir. Námskeiðið er einnig kjörið tækifæri til að hitta aðra í svipuðum hugleiðingum. Námskeiðið skiptist í níu hluta. Sjá nánari lýsingu á námskeiðshlutunum hér fyrir neðan.

Markhópar eru:

  • Sprotafyrirtæki
  • Einstaklingar í leit að nýjum leiðum
  • Matvælaframleiðendur í héraði
  • Ferðamannaþjónusta og aðrir sem hafa áhuga á matvælaframleiðslu

Markmið með námskeiðinu er að þátttakendum verði kunnugt um lög og reglugerðir sem gilda um starfsemi matvælafyrirtækja.

Lýsing
Á fyrri hluta þessa námskeiðs verður farið verður yfir hin mismunandi félagaform (s.s. hlutafélög, samvinnufélög, einkahlutafélög) sem til greina koma við stofnun matvælafyrirtækja og hvaða þætti þarf að skoða við val á félagaformi. Þá verður fjallað um reglugerðir tengdar starfsmannamálum s.s. öryggi starfsmanna o.fl.
Á seinni hluta námskeiðsins verður farið yfir þær kröfur sem þarf að uppfylla til að fá starfsleyfi fyrir matvælafyrirtæki og hvernig og hvar á að sækja um slíkt leyfi. Einnig fá þátttakendur yfirlit yfir lög og reglugerðir sem matvælafyrirtæki þurfa að vinna eftir. Þar má nefna nýja matvælalöggjöf sem nú er að taka gildi og ýmsar sértækar reglugerðir sem varða matvælaframleiðslu.

Námskeiðslengd: 4 klukkustundir

Markmið með námskeiðinu er að þátttakendur fái grunnskilning á hegðun örvera og áhrifum þrifa og ýmissa umhverfisþátta á örveruvöxt.

Lýsing
Farið verður yfir grunnþætti matvælaörverufræði. Rætt verður um hegðun og útbreiðslu örvera, skaðsemi og hagnýtingu hinna mismunandi örveruhópa og hvernig þær geta borist milli manna og í matvæli. Helstu örverur sem valda matarsjúkdómum eru kynntar til sögunnar. Farið yfir mun á matareitrunum og matarsýkingum. Áhrif hitastigs á örveruvöxt og mikilvægi þess að kælikeðjan sé óslitin. Fjallað verður um hvernig krossmengun getur orðið við mismunandi aðstæður. Rætt um persónulegt hreinlæti og umgengnisreglur. Handþvotturinn verður krufinn til mergjar. Þá verður fjallað um þrif og sótthreinsun, tilgang, árangur og þrifaeftirlit. Nemendur læra að taka örverusýni, bæði vatnssýni, snertisýni með Rodac skálum og stroksýni.

Námskeiðslengd: 4 klukkustundir

Markmið með námskeiðinu er að þátttakendur geri sér grein fyrir hvaða þættir það eru í umhverfi og búnaði matvælafyrirtækja sem geta haft áhrif á öryggi matvælanna.

Lýsing
Fjallað verður um hvað hafa ber í huga þegar vinnusvæði matvælafyrirtækja er skipulagt, hvernig gott skipulag frá byrjun og þrifavænleg hönnun tækja og búnaðar getur komið í veg fyrir ýmis vandamál síðar meir. Hvað eru “hrein” og “óhrein” svæði og hvernig gæti krossmengun átt sér stað á vinnusvæðinu. Farið er yfir kröfur sem gerðar eru til efna og hluta sem koma í snertingu við matvæli og rætt um mikilvægi þess að aðstaða og búnaður sé þannig úr garði gerður að þrif og umgengni verði sem auðveldust.

Námskeiðslengd: 3 klukkustundir.

Markmið með námskeiðinu er að þátttakendur fái grunnskilning á innra eftirliti.

Lýsing
Starfsemi matvælafyrirtækja er margbreytileg og þarf innra eftirlit alltaf að taka mið af hverju fyrirtæki fyrir sig með það í huga að tryggja öryggi, gæði og hollustu matvæla.
Fjallað er um öryggi í gegnum alla “fæðukeðjuna”. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.
Farið er yfir hvernig koma má upp virku innra eftirliti, sem byggir á aðferðum HACCP, á einfaldan hátt. Þar gegna góðir framleiðsluhættir/fyrirbyggjandi aðgerðir lykil hlutverki t.d. virk hreinlætisáætlun, kröfur til birgja, þjálfun starfsfólks, fyrirbyggjandi viðhald og hitastigsstjórnun. Farið er yfir helstu hættur í matvælum, eftirlit með þeim, skráningar og úrbætur.

Námskeiðslengd: 6 klukkustundir
Kvartanir – Hvernig vinnum við úr kvörtunum og nýtum til góðs? Sannprófun á gæðakerfum – Hvernig tryggjum við að innra eftirlitið sé að virka?

Markmið með námskeiðinu er að þátttakendur fái yfirlit yfir helstu hráefni, aukefni og íblöndunarefni í matvæli

Lýsing
Unnið er út frá fæðuhringnum og mismunandi hráefni kynnt til sögunnar. Efnainnihald mismunandi hráefna skoðað, baunir, grænmeti, ávextir, kjöt, egg, fiskur og kornvörur – ofnæmisvaldar, erfðabreytt matvæli. Ferskleiki hráefnis og ferskleikamat. Rætt verður um mikilvægi vöru- og hráefnisþekkingar til þess að tryggja að meðhöndlun vörunnar sé rétt. Vörulýsingar – hvaða kröfur á að gera til vörulýsinga frá birgjum. Skilgreining og flokkun aukefna. Aðskotaefni – hvernig þau geta borist í matvörur.

Námskeiðslengd: 4 klukkustundir

Markmið með námskeiðinu er að þátttakendur fái innsýn í mismunandi pökkunaraðferðir, val á umbúðum utan um matvæli og þekki reglur sem gilda um umbúðamerkingar.

Lýsing
Taka þarf tillit til ýmissa þátta varðandi samsetningu og gerð vöru þegar umbúðir eru valdar. Einnig getur val á umbúðum og pökkunaraðferðir haft mikil áhrif á geymsluþol. Farið yfir hvernig hægt er að ákveða geymsluþol með skynmati og mælingum. Rætt verður um ýmsar gerðir umbúða sem notaðar eru fyrir matvæli og mikilvægi þess að notaðar séu umbúðir sem ætlaðar eru fyrir matvæli. Farið er yfir kröfur sem gerðar eru til umbúðamerkinga, en afar mikilvægt er að merkingar matvæla séu réttar og vel framsettar. Þátttakendur fá þjálfun í að setja upp innihaldslýsingar og að lesa úr umbúðamerkingum.

Námskeiðslengd: 4 klukkustundir

Markmið með námskeiðinu er að þátttakendur kunni skil á kröfum sem gerðar eru til vinnuverndar.

Lýsing
Farið er yfir hvaða þætti vinnuvernd innifelur og reglugerð um framkvæmd og skipulag vinnuverndarstarfs á vinnustöðum kynnt. Ábyrgð og skyldur atvinnurekanda, yfirmanna og starfsmanna er skilgreind ásamt helstu hlutverkum öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða. Lögð er áhersla á að starfsmenn kynni sér rétt vinnubrögð m.t.t. öryggis og vellíðunar s.s. vinnu við vélar, meðhöndlun á efnum og notkunar á persónuhlífum.

Námskeiðslengd: 4 klukkustundir

Markmið með námskeiðinu er að kynna samtök fyrirtækja í atvinnurekstri og hvað þau hafa upp á að bjóða.

Lýsing
Umhverfi matvælafyrirtækja er síbreytilegt, hvort sem um er að ræða nýjungar í tækni eða t.d. nýjar reglugerðir. Hlutverk samtaka í atvinnurekstri getur verið mikið til þess að miðla upplýsingum en jafnframt gæta hagsmuna umbjóðenda sinna.

Námskeiðslengd: 1 klukkustund

Markmið með námskeiðinu er að kynna þátttakendum hvaða möguleikar eru á styrkjum til nýjunga og vöruþróunar og hvert eigi að leita.

Ýmsir möguleikar eru fyrir hendi til að sækja um styrki eða stuðning af einhverjum toga, sérstaklega fyrir ný eða ung fyrirtæki. Það þarf hins vegar að vita hvar á að leita og hvernig er best að standa að slíkum umsóknum.

Námskeiðslengd: 2 klukkustundir

Fyrirspurn um námskeið

Önnur námskeið