Sýni hefur um margra ára skeið boðið fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum upp á hreinlætiseftirlit og er með marga aðila í ólíkum greinum í föstum viðskiptum.
Hreinlæti og þrif eru tveir af mikilvægustu þáttunum til að tryggja öryggi matvæla og hluti af góðum starfsháttum sem eru grunnstoðir HACCP kerfa í matvælafyrirtækjum. Einnig er hreinlæti mjög mikilvægur þáttur í ásýnd fyrirtækja og skiptir viðskiptavininn miklu máli. Ef hreinlæti og þrif eru ekki fullnægjandi getur það haft áhrif á gæði og öryggi matvæla ásamt því að skaða orðspor fyrirtækisins.
Til þess að ganga úr skugga um hvernig til hefur tekist með þrif í matvælafyrirtækjum er nauðsynlegt að hafa virkt hreinlætiseftirlit. Hreinlætiseftirlit er sannprófun á að umgengni, tiltekt, þrif og sótthreinsun sé fullnægjandi. Oft er það verkstjóri eða annar starfsmaður fyrirtækisins sem sér um þennan þátt, en einnig hefur það gefið mjög góða raun að kaupa þjónustu annars staðar frá.
Við hreinlætiseftirlitið er jöfnum höndum notað sjónmat, sýnataka með Rodac skálum, ATP mælingar, stroksýni og loftsýni. Að lokinni sýnatöku er veitt ráðgjöf um úrbætur. Í hreinlætisúttektum er einnig skoðað ástand húsnæðis og búnaðar. Niðurstöður hreinlætisúttektar eru settar fram í skýrslu og gefnar einkunnir, en þannig geta fyrirtæki sett sér mælanleg markmið og fylgst tölfræðilega með árangri og fylgni.
Ráðgjafar Sýnis aðlaga eftirlitsáætlun og tíðni heimsókna að aðstæðum hjá hverjum viðskiptavini fyrir sig. Reynsla þeirra auðveldar viðskiptavinum að taka hreinlætismál föstum tökum og tryggja öryggi.