Sýni sérhæfir sig í ráðgjöf og aðstoð við uppsetningu á HACCP matvælaöryggis- og gæðakerfum byggð á aðferðarfræði Codex Alimentarius. Lögð er áhersla á að starfsmenn viðkomandi fyrirtækis taki virkan þátt í uppbyggingu forvarna og hættugreiningar fyrir framleiðsluferla fyrirtækisins og er vinnan alltaf sniðin að umfangi og þörfum þess. Innleiðing vinnu- og verkferla, þjálfun starfsfólks og stjórnenda er einnig hluti vinnunnar sé þess óskað.
Hvers vegna HACCP og virkt gæðakerfi ?
Kaupendur og neytendur gera nú meiri kröfur en áður til matvælafyrirtækja. Matvælin eiga að vera örugg, fersk og í sumum tilfellum tilbúin á diskinn. Auknar kröfur eru einnig gerðar til skilvirkni matvælaöryggiskerfa og oft fara kaupendur fram á vottun þriðja aðila. Meiri kröfur eru einnig gerðar til umbúðaframleiðenda um öryggi og gæði umbúða. Sama er að segja um flutningsaðila um öruggan flutning matvöru heimshorna á milli. Sífellt er því meiri ábyrgð lögð á matvælafyrirtækin um rétta meðhöndlun við framleiðslu og dreifingu. Tjón neytenda og fyrirtækja getur orðið mikið ef eitthvað fer úrskeiðis. Innleiðing og sífelld rýni gæðakerfa sem byggja á HACCP er talin góð aðferð til að tryggja öruggi og gæði matvæla. Auk þess eiga öll fyrirtæki sem framleiða og dreifa hráefnum, matvælum og fóðri að fylgja löggjöfum markaðslanda sem m.a. gera kröfu um virkar forvarnir og HACCP kerfi.
Matvælaöryggis- og gæðakerfi þurfa stöðuga endurskoðun.
Starfsmenn ráðgjafadeildar Sýnis hafa réttindi til að gera bæði innri og ytri úttektir á gæðakerfum fyrirtækja. Endurskoðun gæðakerfa tryggir að ávallt sé verið að vinna eftir settum vinnu- og verklagsreglum og þeim stöðlum sem fyrirtækið hefur innleitt, s.s. BRC, ISO, , IFS, YUM, IFFO, MSC, RFM o.fl.
Sannprófun gæðakerfa
Til að tryggja stöðugt og skilvirkt gæðakerfi þarf að sannprófa það reglulega. Sem dæmi um sannprófun má nefna innri úttektir, GMP úttektir, yfirferð á verklagsreglum og skráningum. Niðurstöður eru nýttar til að endurskoða og aðlaga gæðakerfið breyttum aðstæðum. Mikilvægt er að hæft starfsfólk með viðeigandi þekkingu framkvæmi sannprófanir.